Djöflaeyjan, kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar sem kom út 1996, hefur líkt og bækurnar sem hún byggist á orðið hluti af sjálfsmynd Íslendinga. „Þessi braggahverfi voru alltaf svolítið heillandi,“ segir leikstjórinn.
Djöflaeyjan var umfangsmikil framkvæmd og með dýrari kvikmyndum sem gerðar hafa verið á Íslandi. Heilt braggahverfi var reist á Seltjarnarnesi þar sem stærstur hluti Djöflaeyjunnar var myndaður.
• Fjallað er um Djöflaeyjuna í þáttunum Ísland: Bíóland. Myndin er aðgengileg í spilara RÚV.
„Frikki treysti manni alltaf fyrir öllu,“ segir Árni Páll Jóhannsson leikmyndahönnuður. „Það var svo gott að eiga við hann. Þegar ég var búinn að sýna honum settin og búa til módel og lýsa fyrir honum hvað gæti gerst þarna og þarna þá lét hann mann algjörlega eiga sig. Hann kom eftir margar, margar vikur. Þegar þetta var allt komið upp kemur Frikki fyrir hornið hjá blokkinni. Svo labba ég til hans og hann á móti mér. Ég bjóst við einhverju kommenti. En nei, þá sagði hann: Give me five. Það var allt sem hann sagði.“
Djöflaeyjan byggist á vinsælum skáldsögum Einars Kárasonar, Þar sem djöflaeyjan rís og Gulleyjunni. Þetta er breið, epísk frásögn um afar skrautlega stórfjölskyldu á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Lífið mótast af fátæktarbasli, drykkjuskap, meðvirkni og alltumlykjandi andlegri kröm. En það er aldrei dauð stund og baráttuandinn er næstum ávallt óbugaður hvort sem fólkið reynir að gera gott eða bara illt verra.
Djöflaeyjan hlaut gríðarlega aðsókn, annað eins hafði ekki sést síðan á árum kvikmyndavorsins. Líkt og bækurnar hefur hún orðið hluti af sjálfsmynd okkar, þeim hugmyndum sem við höfum um hver við erum og hvaðan við komum.
„Þessi braggahverfi voru alltaf svolítið heillandi,“ segir Friðrik Þór. „Það var braggahverfi fyrir ofan Stórholtið og það var mjög hart hverfi. Það var svolítil geðveiki þar og þar var framið morð. Eins og ég orðaði það, maður labbaði ekkert í gegnum það hverfi nema vera með snjóbolta í báðum.“
Sórust í fóstbræðralag eftir 10 bjóra
Tilurð bóka Einars og kvikmyndar Friðriks eru á vissan hátt samofin. „Þetta var loforð sem ég gaf Einari. Hann var að skrifa þetta þegar við vorum að klára Rokk í Reykjavík '82 þá var hann að skrifa þessa sögu. Eftir að hann sá Rokkið í Kaupmannahöfn þá fengum við okkur bjór,“ segir Friðrik.
„Hann var rosalega upptekinn af því að hann ætlaði að fara að gera mynd um fulla sjóara sem brjótast inn í sportfæra-verslun, það er að segja Skytturnar,“ segir Einar Kárason. „Mér fannst hans hugmynd alveg frábær og honum fannst mín hugmynd um skáldsöguna alveg frábær. Og þegar við vorum búnir að drekka svona tíu bjóra þá tókumst við í hendur og sórumst í það fóstbræðralag að ég myndi skrifa fyrir hann handritið að myndinni um sjóarana en hann myndi kvikmynda bókina þegar hún kæmi út.“
„Maður stendur náttúrulega alltaf við loforð,“ segir Friðrik Þór.