Ný uppsetning á barnasöngleiknum Benedikt búálfi í samkomuhúsi Akureyrar er því sem næst óaðfinnanleg, að mati Kristínar Þóru Kjartansdóttur staðarhaldara í menningarhúsinu Flóru.
Leikfélag Akureyrar, í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, frumsýndi fyrr í mánuðinum fjölskyldusöngleikinn Benedikt búálf eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson við tónlist Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar. Leikstjóri sýningarinnar er Vala Fannel.
Sagan af Benedikt búálfi kom út 1999 og rataði fyrst á svið 2002 sem barnasöngleikur í leikstjórn Gunnars Gunnsteinssonar með frumsaminni tónlist Þorvaldar Bjarna. Söngleikurinn varð mjög vinsæll en þar er sagt frá því þegar Dídí mannabarn er fengin af Benedikt búálfi inn í álfanna heim til að bjarga þar málum. Þau fá til liðs við sig Daða dreka, sem er stórhættulegur dreki með ekki svo stórt hjarta, og hetjurnar þurfa að yfirstíga ýmsar hindranir í baráttu góðs og ills.
Fjallað er um uppsetninguna í Lestarklefanum, umræðuþætti um menningu og listir á Rás 1, og eru gestir þáttarins á einu máli um að sýningin sé einstaklega vel heppnuð.
Kristín Þóra Kjartansdóttir staðarhaldari í menningarhúsinu Flóru segir það hafa verið einkar ánægjulegt að fara aftur í leikhús eftir langt hlé. „Þetta var eins og að fá jólapakka, sérstaklega núna eftir að það var svona mikið lokað,“ segir hún. „Þetta er frábær uppsetning. Leikhús eins og það gerist best finnst mér. Þeim tekst að skapa frábæran töfraheim í ljósi, lýsingu og hljóðum. Búningarnir eru ógeðslega flottir og leikurinn. Þetta er óaðfinnanlegt. Allir sem voru á sýningunni sem ég var á, með börnum allt niður í þriggja ára, voru hugfangnir og hrifnir.“ Hún segir leikritið sjálft vera dæmigerða ævintýrasögu um baráttu góðs og ills, og því fylgi kostir og gallar. „Þetta er einföld saga í sjálfu sér og þegar maður horfir á kvenímyndirnar þá er þetta dálítið 20. aldarlegt. Ég tók eftir gamaldags atriðum sem hefði kannski mátt slípa til.“
Tónlist leikur stórt hlutverk í sýningunni og Hjörleifur Örn Jónsson skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri fylltist þáþrá þegar hann fór á hana. „Það var til DVD-diskur heima hjá mér þegar strákurinn minn var pínulítill, sem hét Benedikt búálfur, og hann kveikti svona ofboðslega sterkt á honum. Ég held að þetta hafi verið í gangi í tvö ár í sjónvarpinu, alltaf eftir leikskóla. Ég verð að segja að lögin hans Þorvaldar eru einstök. Maður heyrir rödd hans þarna en hann er búinn að vaxa svo ofboðslega í sinni listsköpun að þessar útsetningar á ljóðrænum lögum eru orðnar risastórar. Þarna á bak við er 40-50 manna sinfóníuhljómsveit og sýningin hefði alveg getað borið sig á stærra sviði.“
Karólína Baldvinsdóttir myndlistarmaður skemmti sér konunglega. Hrifnust var hún af persónunni Daða dreka sem Birna Pétursdóttir leikur. „Mér finnst verkið rosalega fallegt og leikmyndin algjör snilld.“ Hún hefur ekkert út á verkið að setja. „Ég hugsaði þetta mikið á leiðinni út út leikhúsinu og það var ekkert sem ég gat sett fingur á. Mér fannst allir standa sig eins og hetjur.“