Forstjóri Menntamálastofnunar segir að rafrænt prófakerfi fyrir samræmd próf sé nú fullreynt og að það verði ekki notað framar. Fáist ekki nýtt kerfi verði prófin lögð fyrir á pappír. Undanfarin ár hefur stofnunin ítrekað bent menntamálaráðuneytinu á að kerfið sé úrelt og óhentugt, kominn sé tími til að fé sé lagt í innviði menntunar.
Forstjóri Menntamálastofnunar segir að rafrænt prófakerfi fyrir samræmd próf sé nú fullreynt og að það verði ekki notað framar. Fáist ekki nýtt kerfi verði prófin lögð fyrir á pappír. Undanfarin ár hefur stofnunin ítrekað bent menntamálaráðuneytinu á að kerfið sé úrelt og óhentugt, kominn sé tími til að fé sé lagt í innviði menntunar.
Samræmd próf hafa verið lögð fyrir rafrænt í 4., 7. og 9. bekk frá árinu 2016. Menntamálastofnun hefur undanfarin ár sent ráðuneytinu tólf minnisblöð þar sem þörfin fyrir nýtt rafrænt prófakerfi er ítrekuð. Í einu þeirra segir að þegar það var keypt hafi ódýrasta og einfaldasta kerfið verið valið sem standi ekki undir nútíma kröfum.
Sérfræðingahópur sem lagði mat á framkvæmd prófanna árið 2019 sagði hæpið að þau uppfylltu lögbundin viðmið og á fundi fulltrúa Menntamálastofnunar og menntamálaráðuneytisins sama ár kom fram að prófin væru ekki í samræmi við kröfur samtímans og þróun í öðrum löndum. Þá var áætlað að kostnaður við nýtt prófakerfi væri um 100 milljónir á ári.
Arnór Guðmundsson forstjóri Menntamálastofnunar segir að lítið hafi verið um svör frá ráðuneytinu við þessum minnisblöðum. „Við höfum lagt fram ýmsar tillögur þarna, meðal annars að það verði hætt að leggja fyrir prófin tímabundið á meðan það er verið að koma þessum málum í lag. Við höfum ekki fengið viðbrögð við því,“ segir Arnór.
Þegar nemendur í 9. bekk hugðust taka samræmt próf í íslensku á mánudaginn hrundi kerfið og í kjölfarið aflýsti Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra prófum í ensku og stærðfræði sem leggja átti fyrir í næstu viku.
Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar spurði Lilju út í rafræna prófakerfið á þingi í gær. Þar sagði Lilja að mikil endurskoðun hefði átt sér stað á kerfinu. Líta mætti á þetta sem ákveðið tækifæri og þróa það enn frekar.
Arnór segir að kerfið verði ekki notað áfram. „Við treystum okkur ekki til að leggja fyrir próf með þessu kerfi. Okkar tillaga er að það verði gert hlé í tvö ár, þessi mál skoðuð frá grunni og byggt upp öruggt kerfi á þeim tíma.“
Samræmd próf í 4. og 7. bekk eru fyrirhuguð í haust. Arnór segir að verði ekki komið nýtt rafrænt prófakerfi þá, þá verði þau lögð fyrir á pappír.
„En það þarf bara að gera ráðstafanir fyrir haustið og taka ákvarðanir í þessum málum. Ég held að menn séu kannski ekki tilbúnir til að horfast í augu við hvað það kostar að byggja upp innviði fyrir menntun. Menn horfa ekki í aurana þegar það er verið að setja upp brýr og vegi sem kosta milljarða. En þegar talað er um einhverja hundruði milljóna í innviði menntunar þá sjáum við þá ekki.“