Formaður BSRB segir að forsendur styttingar vinnuvikunnar séu að fólk lækki ekki í launum og að launakostnaður hækki ekki. Styttingin megi ekki heldur bitna á þeirri þjónustu sem veitt er.

Samkvæmt kjarasamningum átti styttingu vinnuviku dagvinnufólks að vera lokið um áramótin. Málið er eða getur verið flókið og því skiljanlegt að ekki sé búið að ljúka þessu verki á öllum vinnustöðum. Samkvæmt upplýsingum frá BSRB hefur meirihluti stofnana ríkisins og vinnustaða í Reykjavík nú þegar ákveðið að stytta vinnuvikuna úr 40 í 36 stundir. Af þeim átta ráðuneytum sem hafa lokið við að semja við sitt fólk hafa allt að 80% farið þá leið að stytta vinnutímann í 36 stundir á viku. Aðrir hafa farið einhverja millileið en aðeins örfáir hafa ákveðið að stytta vinnuvikuna um 65 mínútur á viku eða um 13 mínútur á dag. Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB segir að heilt yfir hafi þetta gengið vel. Ekki séu komnar nægilega margar tilkynningar frá sveitarfélögum til að meta stöðuna heildstætt.

„En við sjáum á þeim tilkynningum sem hafa borist að það getur verið mjög mikil fjölbreytni í því hvernig vinnustaðir innan hvers sveitarfélags eru að stytta og svo misjafnt eftir sveitarfélögum,“ segir Sonja Ýr.

Laun lækki ekki og launakostnaður hækki ekki

Það hefur komið fram að á sumum vinnustöðum virðist stytting vinnuvikunnar bitna á þjónustu viðkomandi vinnustaðar. Sonja Ýr segir að það hafi ekki verið hugsunin á bak við styttinguna.

„Nei, það var einmitt ein meginforsendan og er skrifuð inn í kjarasamninginn að þetta á að byggja á umbótasamtali sem gengur út á að finna út úr því hvernig hægt sé að vinna betur, bæta þjónustuna og tryggja að fólki líði betur með styttingu vinnuvikunnar. Það er ein af forsendunum að það eigi ekki að verða aukning, hvorki á kostnaði né að fólk lækki í launum. Sömuleiðis að þetta megi ekki bitna á þeirri þjónustu sem er veitt.“

-Þessi gagnrýni hefur meðal annars komið fram í leikskólum þar sem er kannski erfitt að auka ekki launakostnað á sama tíma og vinnutíminn er styttur.

„Í grunninn verður að segjast eins og er að leikskólarnir eru mjög fjölbreyttir. Sum staðar er mannekla og við sjáum dæmi um að þeim gangi betur, eins og hjá borginni, að bæta við sig starfsfólki þegar búið er að ákveða styttingu vinnuvikunnar. Að mínu mati eiga leikskólar að fá stuðning fá sínum sveitarfélögum um hvernig þeir eiga að fara í þetta verkefni. Það er talsvert mikil fræðsla sem er búið að bjóða upp á en það er ljóst að þetta er átak. Það þarf að tileinka sér nýja hugsun. Hugsa þetta allt upp á nýtt og endurskipuleggja sig. Það eru 90% leikskóla hjá Reykjavíkurborg sem hefur tekist að stytta vinnuvikuna í 36 án þess að það hafi áhrif á þjónustuna hjá þeim.“

-Þannig að þitt svar er klárlega að þetta á ekki að bitna á þjónustu viðkomandi vinnustaðar?

„Það er alveg á hreinu því það er eitt af meginmarkmiðum með þessum breytingum að sýna fram á að það sé hægt að ná þessum gagnkvæma ávinningi bæði fyrir vinnustaðinn og starfsfólkið. Og það þýðir að það megi ekki bitna á þjónustunni,“ segir Sonja Ýr.

 
Umbreyta kaffitímum

Grunntónninn eða meginmarkmiðið er að vinnuvikan styttist úr 40 klukkustundum í 36. Lágmarks stytting er 13 mínútur á dag eða 65 mínútur á viku. Í því tilfelli haldast matar- og kaffitímar óbreyttir samkvæmt kjarasamningi. Kaffitímar eru alls 35 mínútur og hafa verið hluti af vinnutímanum en ekki matartímarnir. Laun hafa ekki verið greidd í matarhléum. Sonja segir að mögulegt sé að umbreyta eða flytja kaffitímana yfir á matarhléin. Til viðbótar komi 13 mínútna stytting.


„Ef farið er í 36 tíma vinnuviku þá er verið að umbreyta greiddum kaffitímum yfir í sveigjanleg hlé. Hins vegar er mikilvægt að þetta sé rætt á vinnustað hvernig eigi að haga þessu í framtíðinni. Meginmarkmiðið með styttingu vinnuvikunnar er að tryggja betri líkamlega og andlega líðan fólks og auka möguleika á samþættingu vinnu og einkalífs og líka öryggi starfsfólks,“ segir Sonja Ýr.

Nánar er rætt við Sonju Ýr í Speglinum. Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að ofan.