Síðustu misseri hefur verið unnið að gagngerum endurbótum Krosskirkju, sem er lítil sveitakirkja á bænum Krossi í Austur-Landeyjum. Í ár eru liðin hundrað og sjötíu ár síðan Krosskirkja var vígð og á þessum tíma hefur henni verið breytt töluvert en ekki endilega til prýði. Því var ákveðið að koma henni í upphaflegt horf.
Landinn kynnti sér endurbæturnar og hitti Elvar Eyvindsson, sóknarnefndarformann: „Það var svosem ekki hlaupið að því en við komumst í gamlar vísitasíur þar sem er að finna nokkuð greinargóða lýsingu á kirkjunni og síðan sáu smiðirnir og arkitektarnir ýmis ummerki þegar farið var að rífa innan úr kirkjunni. Þannig var hægt að komast held ég býsna nálægt upprunanum.“
Fjallað um Tyrkjaránið með duldum hætti
Altaristafla Krosskirkju er merkilegur gripur en hún er frá 1650. Þorsteinn Helgason, sagnfræðingur, sem rannsakað hefur töfluna hefur sett fram þá kenningu að hún tengist Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum og hefur bent á ýmislegt í efnistökum og útfærslu á myndefninu sem bendi til þess að þar sé með duldum hætti verið að fjalla um Tyrkjaránið. Einnig að gefendurnir hafi hugsað gjöfina sem einhverkonar uppgjör við þessa hryllilegu atburði.