Íslensk erfðagreining hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 2020. Fyrirtækið er sagt hafa skipt sköpum í baráttunni við faraldurinn hér á landi og hafi í gegnum tíðina laðað sérfræðinga til landsins til að starfa á vettvangi vísindastarfs. Hildur Guðnadóttir fékk einnig sérstaka heiðursviðurkenningu fyrir eftirtektarverð störf á erlendri grundu.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar veitti verðlaununum viðtöku við lokaða athöfn í Hörpu í dag. 

„Á síðustu árum hefur ný hugvitsgrein sprottið úr öflugu íslensku vísindasamfélagi og traustu heilbrigðiskerfi; líf- og heilsutækni í víðtækum skilningi. Fyrir utan efnahagslegt mikilvægi þessarar starfsemi fyrir þjóðarbúið og þau spennandi tækifæri sem hún skapar fyrir ungt og menntað fólk, hefur bein þýðing lífvísindanna fyrir líf og heill almennings komið berlega í ljós í yfirstandandi heimsfaraldri.“ segir í  tilkynningu vegna verðlaunanna.

Þá hafi fyrirtækið skipt sköpum í laða að sérfræðinga úr þekkingarsamfélaginu til uppbyggingar nýrrar atvinnugreinar.

„Ein þýðingarmestu tímamót í þróun þessarar mikilvægu atvinnugreinar á Íslandi er án efa stofnun Íslenskrar erfðagreiningar. Hér var komið eitt af fyrstu stóru fjárfestingaverkefnunum með aðkomu erlendra aðila, sem ekki byggði á orkuauðlindum okkar heldur þekkingu og hugviti. Áhrifin af tilkomu  fyrirtækisins náðu langt út fyrir eiginlega starfsemi þess enda var grunnur lagður að nýrri tegund alþjóðlegrar þekkingarstarfsemi hér á landi. Til varð stærri og frjórri vettvangur vísindastarfs í atvinnulífinu sem laðaði bæði innlenda og erlenda sérfræðinga til landsins. Ófá íslensk fyrirtæki á þessu sviði má beinlínis rekja til þess jarðvegs sem hér varð til.“ segir í tilkynningu.

Hildi Guðnadóttur, tónlistarkona og tónskáld hlaut við sama tilefni sérstök heiðursverðlau fyrir störf sín á erlendri grundu. Hildur hlaut fyrr á árinu Óskarsverðlaun og Golden Globe fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker auk Grammy verðlauna fyrir tónlist sína í þáttunum Chernobyl. Þá hefur hún einnig hlotið Emmy verðlaun og BAFTA verðlaunin. 

„Með sköpun sinni hefur orðspor Hildar borist út um allan heim á undanförnum árum og hún hlotið verðskuldaðar viðurkenningar. Hildur vann á þessu ári Óskarsverðlaunin, fyrst Íslendinga. Hún hafði áður m.a. hlotið Emmy verðlaun, Grammy verðlaun, Golden Globe og BAFTA verðlaunin. Þá er hún tilnefnd til tvennra Grammy verðlauna sem verða afhent í janúar,“ segir í tilkynningu.

Systir Hildar, Margrét Guðnadóttir, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hennar hönd.

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 32. sinn en þau voru fyrst afhent árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Sjóklæðagerðin – 66°Norður, Trefjar ehf, Nox Medical, Truenorth og Ferðaskrifstofa bænda, og á síðasta ári hlaut Marel verðlaunin.

Tilgangurinn með veitingu Útflutningverðlaunanna er að vekja athygli á þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum mörkuðum og fleiru.