Litlar aukaverkanir eru af bóluefni gegn kórónuveirunni, segir smitsjúkdómalæknir. Aukaverkanirnar líði hjá á nokkrum dögum. Þær séu ekki jafn miklar og afleiðingar COVID-19 geti verið. Mikilvægt sé að fólk þiggi bólusetningu því þannig verndi þeir ekki aðeins sjálfan sig heldur einnig þá sem eru veikastir fyrir.
Íslendingar hafa tryggt sér bóluefni frá Pfizer fyrir 85.000 manns, frá AstraZeneca fyrir 115.000 manns og vonir standa til að bóluefni fyrir 40.000 fáist hjá Moderna. Þetta gerir bóluefni fyrir 240.000 manns. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að bólusetja að minnsta kosti 75% þeirra sem eru eldri en fimmtán ára. Það eru 215.000 manns. Þar með hafa stjórnvöld náð markmiði sínu og rúmlega það. Þau reikna með að bóluefnið kosti 1.350 milljónir króna.
Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Gallup gerði fyrir tveimur mánuðum ætluðu 6% ekki að láta bólusetja sig. Sumir óttast aukaverkanir.
„Þessar skammtímaaukaverkanir af bóluefninu eru nánast engar. Margir fá þessar klassísku bóluefnaaukaverkanir sem eru hugsanlega hiti og smá beinverkir í nokkra daga og eymsli þar sem bólusetningin er gerð, jafnvel einhver smá roði eða bólga. Þetta hefur eiginlega undantekningarlaust liðið hjá á nokkrum dögum,“ segir Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítala.
Bryndís segir að þó svo aukaverkanir af bóluefnunum séu aðeins meiri en af flensubólusetningu sé nánast öruggt að afleiðingar áframhaldandi faraldurs séu verri.
„Við þurfum líka að átta okkur á því að við erum ekki bara að bólusetja okkur sjálf til þess að vernda okkur, heldur er þetta núna heildarátak. Þetta er heimsátak. Við erum að bólusetja okkur til þess að vernda þessa eldri og viðkvæmu hópa sem við vitum að geta farið mjög illa út úr sýkingunni,“ segir Bryndís.
Hún segir að þátttaka hér á landi sé almennt mjög góð í bólusetningum og það er greinilegt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru klárir í slaginn.
„Ég mun þiggja bólusetningu, já, þegar kemur að mér,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
„Já, ég held að ég verði bara á mínum stað í röðinni. Ég hef enga ástæðu til að óttast það að fá bóluefnið,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Þá ætlar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að þiggja bólusetningu.
„Við teljum að þessi bóluefni væru ekki komin svona langt í framleiðslu og tugir þúsunda einstaklinga búnir að prófa þau fyrir okkur, nema þau væru alveg örugg,“ segir Bryndís.
Þá sé engin hætta á að fá COVID við bólusetningu því veirunni sé ekki sprautað í fólk heldur aðeins erfðaefni. Óvenju stuttan tíma hefur tekið að þróa bóluefnin við COVID og segir Bryndís að það sé vegna þess að allir vísindamenn hafa lagst á eitt. Þá hafi ekki hvílt sama leynd yfir niðurstöðum og alla jafna sé.