Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, vill að komið verði á grímuskyldu í landinu. Grímur séu kraftmikið tæki til að koma í veg fyrir smit. Hann segir það óskynsamlegt að hertar reglur skuli ekki líka gilda úti á landi.
Kári segir að einhverjir smitaðir einstaklingar hafi komist inn í landið í kringum 15. ágúst, meðal annars tveir smitaðir ferðamenn frá Frakklandi. Sams konar smit og þeir voru með hafi borist út í samfélagið. Hann ætli ekki að dæma um það hvort smitið hafi komið frá þeim eða einhverjum öðrum sem komu með sömu vél.
„En eitt er víst, að það kom smit inn í landið. Þegar þetta sprakk allt saman út fyrir rúmlega tveimur vikum þegar greindust 75 einstaklingar sama daginn þá hefði verið skynsamlegt af okkur að grípa til miklu hertari aðgerða, en við gerðum það ekki. Það var tekin sú ákvörðun að bíða og sjá. Það er stundum þannig ef maður bíður bara og sér og grípur ekki inn í að þá verður maður fyrir svona áfalli. Og nú erum við að takast á við það. Ég vil reyndar leggja á það áherslu að það er miklu auðveldara að segja þetta núna heldur en fyrir tveimur vikum," segir Kári.
Þarf að bregðast hratt við
Kári segir að þegar reglur séu liðkaðar verði menn að vera í startholunum til að grípa inn í mjög hratt og ákveðið þegar smit skjóta upp kollinum.
„Við liðkuðum til en það kom í ljós að við vorum ekki eins vel undir það búin að grípa inn af hörku þegar það fór að brjótast út smit. Við værum ekki á þeim stað sem við erum í dag ef við hefðum gripið inn í þegar hópsmitin brutust út í öldurhúsunum niður í miðbæ."
Grímuskylda lífsnauðsynleg
Nú á að herða aðgerðir, er það of seint í rassinn gripið? Nei, alls ekki, segir Kári. Verkefnið verði bara aðeins stærra heldur en ef við hefðum gert þetta fyrir tveimur vikum.
„Við verðum fyrir meiri áföllum í samfélaginu en þörf var á, en ég er alveg fullviss um að við getum náð þessu undir stjórn svo fremi sem við förum alla leið. Við getum ekki leyft okkur að hafa sundlaugar opnar og segja eins og Víðir sagði í viðtali í dag, að leyfa þeim að fara í sund sem þurfa að það vegna heilsunnar. Skilaboð til samfélagsins verða að vera skýr. Það má ekki byggja þetta á alls konar undanþágum. Það verða að vera skýr skilaboð. Eitt af því sem að ég held að sé lífsnauðsynlegt fyrir okkur er að taka upp grímuskyldu. Gríman kemur ekki í veg fyrir að menn geti athafnað sig við alls konar hluti. Hún hefur ekki áhrif á atvinnu í landinu," segir Kári. Grímur hafi ekki áhrif á neitt annað en að minnka möguleika á smitum. „Þær eru afskaplega kraftmikil tæki til að koma í veg fyrir smit. Þannig að mér fyndist eðlilegt að taka upp grímuskyldu í samfélaginu."
Hertar reglur líka úti á landi
Hann segir að það sé ýmislegt sem bendi til þess að okkur takist að hemja veiruna sem sé á sveimi í samfélaginu. Til þess að það takist þurfi að fara alla leið og jafnvel skrefi lengra en gert var í vor. Það þýði ekki að vera með hálfkák og það sé afskaplega óskynsamlegt að hertar aðgerðir gildi ekki líka úti á landi.
„Vegna þess að veiran hefur dreift sér það mikið á höfuðborgarsvæðinu og það eru það mikil samskipti milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar að það er skringileg óskhyggja að búast ekki við því að veiran sé ekki komin út um allt úti á landi líka," segir Kári Stefánsson.
Hlusta má á viðtalið við Kára í spilaranum hér að ofan. Einnig á viðtöl við Thor Aspelund og Má Kristjánsson.