3. apríl 2025 kl. 10:14
Erlendar fréttir
Atlantshafsbandalagið

Rubio kemur á NATO fund með kröfu um hærri útgjöld til varnarmála

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna við upphaf fundar utanríkisráðherra NATO-ríkjanna í Brussel, 3. apríl.
EPA

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna vill að öll aðildarríki NATO stefni að því að verja minnst 5 prósentum af þjóðarframleiðslu til varnarmála.

Rubio lét þessi orð falla í aðdraganda fundar utanríkisráðherra NATO-ríkjanna sem er að hefjast í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel.

„Við viljum ljúka þessum fundi með þann skilning að við séum á raunsærri leið til þess að hvert og eitt aðildarríki verji fimm prósentum [af þjóðarframleiðslu], einnig Bandaríkin, því ef ógnirnar eru eins raunverulegar og við teljum að þær séu, þá verðum við að hafa raunverulegra getu til að mæta þeim.“