4. mars 2025 kl. 5:45
Erlendar fréttir
Lýðstjórnarlýðveldið Kongó
Uppreisnarmenn réðust inn á sjúkrahús og námu sjúklinga á brott
Liðsmenn M23-uppreisnarsveitarinnar í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó námu á brott 131 sjúkling á sjúkrahúsum í borginni Goma í liðinni viku, að sögn Sameinuðu þjóðanna. Reuters greinir frá.
Uppreisnarmenn náðu völdum í Goma í lok janúar og í borginni Bukavu um mánuði síðar.
Sameinuðu þjóðirnar segja að liðsmenn M23 hafi ráðist inn í tvö sjúkrahús og numið 116 sjúklinga á brott frá öðru þeirra og fimmtán frá hinu. Sjúklingarnir hafi verið særðir menn sem tilheyrðu ýmist kongóska hernum eða hersveitum sem eru hliðhollar stjórnvöldum í Kongó.