Óttast er að lík að minnsta kosti hundrað þúsund manns liggi í ómerktri fjöldagröf nærri sýrlensku borginni al-Qutayfah, skammt frá höfuðborginni Damaskus.
Menn úr almannavarnasveitum Sýrlands, hvíthjálmunum svonefndu, bera milli sín lík sem fannst við vegarbrún.AP / Hussein Malla
Reuters hefur þetta eftir Mouaz Moustafa, sem fer fyrir sýrlenskri neyðarbjörgunarsveit, og segir fjölda líkanna verulega varlega áætlaðan. Hann segist hafa fundið fimm slíkar fjöldagrafir víðs vegar um landið og er fullviss að þær séu fleiri. Moustafa segir líklegt að þar sé að finna líkamsleifar erlendra ríkisborgara jafnt sem Sýrlendinga.