15. desember 2024 kl. 14:30
Erlendar fréttir
Ísrael
Ísraelar loka sendiráði sínu á Írlandi
Ísraelsk stjórnvöld ætla að loka sendiráði sínu á Írlandi. Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti landsins segir að þetta sé gert vegna fjandsamlegrar stefnu Írlands í garð Ísraels. Írland er eitt fárra vestrænna ríkja sem viðurkennir sjálfstæði Palestínu, en stjórnvöld á Írlandi gerðu það fyrr á þessu ári.
Írskir ráðamenn hafa ítrekað gagnrýnt framferði Ísraelsmanna.
Simon Harris forsætisráðherra Írlands segir á samfélagsmiðlinum X að það sé afar leitt að Ísraelar hafi ákveðið þetta. Jafnframt hafnaði hann því að Írar væru fjandsamlegir í garð Ísraels. Írsk stjórnvöld styddu frið, mannréttindi og alþjóðalög.