21. október 2024 kl. 10:04
Erlendar fréttir
Innrás í Úkraínu

„Stig­mögn­un“ sé N-Kórea að senda Rússum her­menn

Sé það rétt að norður-kóreskir hermenn ætli að berjast við hlið Rússa í Úkraínu er það mikil stigmögnun, að mati Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins.

Hann segir í færslu á X í dag að hann hafi talað við forseta Suður-Kóreu, Yoon Suk Yeol um málið.

Skjáskot af X-síðu Mark Rutte þar sem hann segir að sending norður-kóreskra hermanna til Úkraínu feli í sér stigmögnun átaka.
Skjáskot af X / Mark Rutte

Leyniþjónusta Suður-Kóreu greindi frá því á föstudag að Norður-Kórea hefði ákveðið að senda þúsundir hermanna til Rússlands. Þegar væru 1.500 norður-kóreskir hermenn í þjálfun þar.

Samkvæmt yfirvöldum í Suður-Kóreu er mögulegt að Norður-Kórea sendi um 12.000 hermenn til þjálfunar hjá Rússlandsher. Ætlunin sé að þeir berjist með hernum í Úkraínu.