Trump kveðst ekki fylgjandi alríkislögum um þungunarrof
Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, kveðst myndu beita neitunarvaldi á alríkislög sem bönnuðu þungunarrof.
Þetta hljóti allir sem þekkja hann að vita, segir í færslu hans á samfélagsmiðlinum Truth Social. Trump segir það hlutverk einstakra ríkja en ekki alríkisins að setja lög um þungunarrof. Melania, eiginkona Trumps, segir í væntanlegri ævisögu sinni að konur eigi að hafa frelsi til ákveða sjálfar hvort þær vilji eignast börn.
Það er í sterkri andstöðu við persónulegt viðhorf Trumps. Rétturinn til þungunarrofs er eitt af lykilmálunum í kosningabaráttunni vestra.
Trump hefur iðulega stært sig af því að þeir þrír hæstaréttardómarar sem hann tilefndi hafi 2022 fellt úr gildi almennan rétt til þungunarrofs og fært ákvörðunarvaldið til einstakra ríkja. Síðan þá hafa 20 ríki sett ströng lög um það.
Alls söfnuðust 160 milljónir dala í kosningasjóð Trumps í september og undir lok mánaðarins hafði framboðið úr 283 milljónum að spila. Rétt rúmur mánuður er í forsetakosningarnar og enn er mjótt á munum milli Trumps og Kamölu Harris, frambjóðanda Demókrataflokksins.