Tupperware óskar eftir gjaldþrotaskiptum
Bandaríska fyrirtækið Tupperware Brands og nokkur dótturfyrirtæki þess hafa óskað eftir gjaldþrotaskiptum á grundvelli 11. kafla gjaldþrotalaga.
Fyrirtækið hefur frá því um miðja seinustu öld framleitt ýmsar heimilisvörur, þekktust eru sennilega loftþéttu plastílátin sem seld eru á heimakynningum. Slíkar kynningar hafa meðal annars tíðkast hérlendis frá því í lok 9. áratugarins.
Í yfirlýsingu fyrirtækisins segir að mjög hafi sigið á ógæfuhliðina fjárhagslega undanfarin ár, einkum eftir að kórónuveirufaraldurinn gekk yfir. Salan tók kipp meðan á honum stóð en dróst mjög saman að honum loknum. Bloomberg segir skuldir fyrirtækisins nema yfir sjö hundruð milljónum dala.
Verð á hlutabréfum í Tupperware féll mikið í kjölfar yfirlýsingarinnar. Fyrirtækið vonast til að geta haldið áfram störfum meðan á gjaldþrotaferlinu stendur, líkt og gert er ráð fyrir í 11. kafla gjaldþrotalaganna, auk þess sem farið verður fram á leyfi til að selja það.