Hvetja til handtöku Pútíns í Mongólíu
Hópur rússneskra stjórnarandstæðinga hvetur yfirvöld í Mongólíu til að handtaka Vladimír Pútín, sem er þar í opinberri heimsókn. Stjórnarandstæðingarnir sendu frá sér yfirlýsingu þess efnis í gær.
Pútín kom til Mongólíu í kvöld og tekur þátt í minningarathöfn um sigur Sovétríkjanna og Mongólíu á Japan í orustunni við Khalkhin Gol-ána 1939.
Mongólía á aðild að Alþjóðasakamáladómstólnum í Haag sem gaf í fyrra út handtökuskipun á hendur Pútín fyrir að heimila að Rússar nemi börn á brott frá Úkraínu.
Vladimir Kara-Murza, sem nýlega var látinn laus úr fangelsi í Rússlandi í fangaskiptum, er einn þeirra sem undirrituðu yfirlýsinguna. Hann sagði í samtali við fjölmiðilinn Current Time að ef Mongólía vilji vera hluti af hinum siðmenntaða heimi beri ríkinu að virða alþjóðlegar skuldbindingar sem það hafi undirritað og fullgilt. „Þetta er ekki spurning um val eða vilja, þetta er spurning um lagalegar skyldur sem krefst þess að farið sé eftir þeim.“