1. september 2024 kl. 1:18
Erlendar fréttir
Ísrael-Palestína

Reyna að bera kennsl á lík sem fundust á Gaza

Ísraelsher sagði í gær að hersveitir hans hefðu fundið lík nokkurra manna á Gaza-svæðinu. Sumir ísraelskir fjölmiðlar herma að meðal hinna látnu sé fólk sem tekið var í gíslingu Hamas-samtakanna 7. október en herinn hefur ekki staðfest það að svo stöddu. Þá er heldur ekki ljóst hve mörg lík fundust.

Herinn sagði að það tæki nokkrar klukkustundir að bera kennsl á hin látnu eftir að líkin yrðu flutt til Ísrael. Hann varaði fólk einnig við því að breiða út sögusagnir þar til búið væri að bera kennsl á hin látnu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti staðfesti við blaðamenn í gærkvöld að lík hefðu fundist en gat ekki sagt til um hverjir hinir látnu væru né hve margir.

Biden sagði einnig að hann teldi samkomulag um vopnahlé á Gaza vera handan við hornið. Allir væru sammála um meginatriði samkomulagsins sem nú væri á borðinu og viðræður stæðu enn yfir.