28. ágúst 2024 kl. 0:37
Erlendar fréttir
Ísrael-Palestína
Hefja hernaðaraðgerðir á Vesturbakkanum
Ísraelski herinn hefur hrint af stað hernaðaraðgerðum á norðanverðum Vesturbakkanum. Talsmaður hersins segir markmiðið vera að hindra hryðjuverkastarfsemi í flóttamannabúðum í Jenín og Tulkarm. Palestínska heilbrigðisráðuneytið segir að tveir menn hafi verið felldir í árásum Ísraelshers í Jenín í gær.
Í fyrradag biðu fimm bana í loftárás hersins á Nur-Skams flóttamannabúðirnar á Vesturbakkanum þegar herinn sagðist hafa lagt til atlögu að miðstöð vígasamtaka í búðunum.
Spenna á Vesturbakkanum hefur stigmagnast síðustu mánuði samhliða stríði Ísraelshers og Hamas á Gaza. Yfir 640 Palestínumenn hafa verið drepnir í árásum Ísraelshers á Vesturbakkanum frá 7. október á síðasta ári, samkvæmt gögnum palestínska heilbrigðisráðuneytisins.