11. júlí 2024 kl. 10:48
Erlendar fréttir
Taívan

Kínverskum herflugvélum fjölgar við Taívan

66 kínverskar herflugvélar hafa sést við Taívan síðasta sólarhringinn og hafa ekki verið fleiri það sem af er ári. Varnarmálaráðuneytið í Taívan tilkynnti þetta í morgun, en hafði áður upplýst að Kínverjar væru með æfingar í nágrenninu.

Strandgæsluskip frá Taívan eltir strandgæsluskip frá Kína við strendur Taívan.
Strandgæsluskip frá Taívan eltir strandgæsluskip frá Kína við strendur Taívan.AP / Taiwan Coast Guard Administration

Fyrir utan flugvélarnar eru sjö herskip líka við eyjaklasann. Minnsta fjarlægð flugvélanna frá Taívan var 60 kílómetrar frá syðsta oddanum. Talið er að tilefni æfingarinnar sé viðbragð við að nýr ræðismaður Bandaríkjanna þar hafi lýst yfir stuðningi við sjálfstæði Taívan.

Síðast þegar Kínverjar stunduðu svo miklar heræfingar við Taívan var verið að setja nýjan forseta landsins í embætti, Lai Ching-te. Hann hefur barist fyrir sjálfstæði Taívan en kínversk stjórnvöld telja hann hættulegan aðskilnaðarsinna. Þau líta svo á að Taívan sé hluti af Kína.