Afgangur af ríkisbúskap Argentínu fyrsta sinni síðan 2008
Afgangur varð af ríkisbúskap Argentínu á fyrsta fjórðungi ársins, að sögn forsetans Javiers Milei. Hann segir það ekki hafa gerst um fimmtán ára skeið, eða síðan 2008.
Milei tilkynnti þetta í sjónvarpsávarpi og sagði afganginn í mars einum nema 276 milljörðum pesóa, eða jafnvirði tæpra 45 milljarða íslenskra króna. Forsetinn sagði þjóðina alla geta verið stolta af þessum árangri, ekki síst í ljósi þess mikla vanda sem við blasti þegar hann tók við völdum í desember.
Forsetinn og ríkisstjórn hans hafa gripið til harðra aðgerða til þess að rétta af viðvarandi fjárlagahalla Argentínu og vinna á verðbólgu.
Til þess hefur þurft að draga úr opinberum útgjöldum, afnema styrki, hætta félagslegum verkefnum og segja upp opinberu starfsfólki. Aðgerðunum hefur verið mætt með umfangsmiklum mótmælum og gagnrýnendur segja fjölda fólks steypt í fátækt auk þess sem framtíð landsins sé í voða.