22. mars 2024 kl. 11:19
Erlendar fréttir
Finnland
Finnar hefja greiðslur til UNRWA
Finnsk stjórnvöld hafa ákveðið að hefja á ný greiðslur til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna. Finnar voru meðal þeirra ríkja sem ákváðu að frysta greiðslur í janúar. Þetta gerðist eftir að Ísraelar sögðu tólf af 30 þúsund starfsmönnum stofnunarinnar hafa átt þátt í árás Hamas á Ísrael 7. október. Finnar styrkja Palestínuflóttamannaaðstoðina um fimm milljónir evra árlega.
Íslendingar voru einnig í hópi fimmtán ríkja sem frystu greiðslurnar. Í vikunni greindi Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra frá því að Ísland myndi greiða 110 milljóna króna kjarnaframlag sitt fyrir mánaðamót.
Öll norrænu ríkin nema Noregur hættu tímabundið greiðslum til Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar. Þau hafa öll ákveðið að hefja greiðslur á ný.