1. mars 2024 kl. 3:19
Erlendar fréttir
Nýja-Sjáland

Milljónabætur vegna mannskæðrar ferðar til eldfjallaeyju

Ferðafólki sem slasaðist og aðstandendum ferðafólks sem lést þegar eldgos braust út á eldfjallaeyju við Nýja Sjáland í desember 2019 hafa verið dæmdar skaðabætur sem nema samtals tíu milljónum nýsjálenskra dala, jafnvirði 840 milljóna króna. Skaðabæturnar greiða fimm fyrirtæki, sem talin eru bera sameiginlega ábyrgð á því að hafa flutt 47 ferðamenn til Hvítu eyju, vinsæls viðkomustaðar skemmti- og skoðunarferðaskipa, sama dag og eldgosið hófst. 22 ferðamenn fórust og mörg þeirra 25 sem komust lífs af brenndust mjög illa. Auk skaðabótanna voru þrjú fyrirtækjanna; það sem á eyjuna og tvö ferðaþjónustufyrirtæki, dæmd til að greiða sekt í ríkissjóð.

This aerial photo shows White Island after its volcanic eruption in New Zealand Monday, Dec. 9, 2019. The volcano on a small New Zealand island frequented by tourists erupted Monday, and a number of people were missing and injured after the blast. (George Novak/New Zealand Herald via AP)
New Zealand Herald / AP

Dómarinn í málinu, Evangelos Thomas, sagði skaðabæturnar „lítið meira en táknræna viðurkenningu" á þjáningum fórnarlambanna. Eftirlifendur glímdu enn við líkamlegar, andlegar og tilfinningalegar afleiðingar þeirra skelfilegu atburða sem þeir lentu í. Thomas sagði öll fimm fyrirtækin hafa vanrækt þá skyldu sína að leggja mat á og lágmarka þá áhættu sem að viðskiptavinum þeirra steðjaði. „Sú vanræksla berskjaldaði aðra fyrir hættunni á alvarlegu líkamstjóni og dauða, sagði dómarinn.