Húsnæðisskorti mótmælt í 40 borgum

Róbert Jóhannsson

,

Spánverjar gengu fylktu liði í fjörutíu borgum til þess að mótmæla háu húsnæðisverði sem er að sliga fjölskyldur í landinu. Bæði leigu- og kaupverð hefur hækkað verulega í borgum landsins. Rík hefð er fyrir því að fjölskyldur eigi þak yfir höfuðið á Spáni frekar en að leigja það, og yfirleitt fáar íbúðir til leigu.

Mótmælin í dag eiga rætur sínar að rekja til mótmæla á Kanaríeyjum í fyrra. Þar lýstu íbúar óánægju sinni með fjölda íbúða í skammtímaleigu fyrir ferðamenn sem væri að gera heimamönnum erfitt fyrir að eignast þak yfir höfuðið. Leigusamtök Tenerife sögðu húsnæði orðið munaðarvöru sem einungis fáar fjölskyldur hefðu efni á.

Mikil þörf er á húsnæðisuppbyggingu á Spáni. Spænsk stjórnvöld telja þörf á minnst 600 þúsund nýjum íbúðum til þess að ná tökum á ástandinu.