26. mars 2025 kl. 10:15
Erlendar fréttir
Tækni og vísindi

Stefna að geimskoti á morgun

Þýska fyrirtækið Isar Aerospace stefnir á að skjóta upp Spectrum-geimferjunni á morgun en tilraunaflugi geimfarsins var frestað fyrr í vikunni.

Til stóð að geimskotið yrði á mánudag en veðurskilyrði voru óhagstæð.

Þetta verður fyrsta tilraunaflug geimferjunnar og jafnframt fyrsta geimskot af þessu tagi frá Evrópu utan Rússlands. Skotpallurinn er á eynni Andøya í norður-Noregi.

Áætlað er að tilraunaflugið verði á bilinu hálf tólf til hálf þrjú á morgun á íslenskum tíma, líkt og upphaflega stóð til á mánudag.

Á myndinni sjáum við Spectrum-geimferjuna. Staðsetningin er eyjan Andøya í Noregi og minnir landslagið á Ísland. Fjall sést í bakgrunni sem er þakið runnum í haustlitum. 
Geimferjan liggur lárétt á flutningabifreið. Við sjáum undir geimferjuna og greinileg eru níu vélarop á botni hennar. Bifreiðin sem geimfarið liggur á er stærðarinnar bifreið með sextán hjól hið minnsta. Á myndinni má sjá menn að vinnu sem klæddir eru sýnileikafatnað líkt og iðnaðarmenn eru almennt.
Spectrum-geimferjan aftan á flutningabifreið.Isar Aerospace / Wingmen Media

Þessi frétt er unnin af meistaranema við Háskóla Íslands í starfsnámi á fréttastofu RÚV.