Viðkomu bandarískrar sendinefndar til grænlensku höfuðborgarinnar Nuuk, og borgarinnar Sisimiut, hefur verið aflýst. Um þetta er tilkynnt á vef landstjórnar Grænlands. Þar segir að bandarísk stjórnvöld hafi aflýst þeim hluta óopinberrar heimsóknar sem tilkynnt var um á dögunum.
J.D. Vance varaforseti Bandaríkjanna ætli, ásamt eiginkonu sinni, að heimsækja bandaríska herstöð á Grænlandi á föstudag. Vance sagði í færslu á samfélagsmiðlum í gær að hann vildi kanna öryggisaðstæður á Grænlandi.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur síðustu vikur ítrekað hótað því að taka yfir Grænland, jafnvel með hervaldi.
J.D. Vance tilkynnti í gær að hann færi með sendinefndinni til Grænlands.AP / Mark Schiefelbein