Frans páfi útskrifaður af sjúkrahúsi

Ólöf Ragnarsdóttir

Frans páfi var útskrifaður í dag eftir fimm vikna dvöl á sjúkrahúsi vegna lungnabólgu. Hann sást í fyrsta sinn opinberlega í dag, rétt áður en hann var útskrifaður.

Frans páfa var mætt með lófataki og fagnaðarópum þegar honum var rúllað út á svalir Gemelli-sjúkrahússins í Róm í morgun. Hann ávarpaði fólkið stuttlega og sagði: „Þakkir til ykkar allra. Ég sé konuna með gulu blómin. Frábært.“

Þetta var í fyrsta sinn sem hann sést opinberlega frá því hann var lagður inn á sjúkrahús 14. febrúar. Frans páfi er 88 ára og var lagður inn vegna lungnabólgu, um tíma var líf hans talið í hættu.

Eftir að hafa veifað til fólks á svölunum var Frans páfi útskrifaður af sjúkrahúsi og snéri aftur í Vaktíkanið. Læknar hans segja hann þurfa minnst tvo mánuði til viðbótar til að jafna sig á veikindunum.