Mahmud Abbas, forseti heimastjórnar Palestínu og leiðtogi Fatah-samtakanna, hvatti Hamas-samtökin í dag að láta af völdum á Gaza-ströndinni til að tryggja tilvist Palestínumanna á svæðinu til framtíðar. Hamas og Fatah-samtökin hafa um árabil eldað grátt silfur saman, en Gaza klofnaði frá öðrum svæðum Palestínumanna eftir löggjafarkosningar árið 2006 þar sem Hamas varð hlutskarpast.
Ísraelsher hóf árásir á svæðið að nýju í síðustu viku eftir vopnahlé. Í gær hótaði Israel Katz varnarmálaráðherra Ísraels því að Gaza yrði innlimað nema Hamas sleppi þeim 58 gíslum sem enn eru í haldi á Gaza.