Rússar ætli að hafa fullveldið af Úkraínu
Rússar hafa ekkert slegið af kröfum sínum eftir allsherjarinnrásina í Úkraínu og það verður áhugavert að sjá hvort þeir geri það í vopnahlésviðræðum, segir Jan Lipavský utanríkisráðherra Tékklands sem var í opinberri heimsókn hér á landi í gær.
Hann átti fund með forsætisráðherra, utanríkisráðherra og utanríkismálanefnd Alþingis. Þar voru sameiginlegir hagsmunir ríkjanna helst til umræðu en sömuleiðis alþjóðamálin og mikilvægi samstöðu NATÓ-ríkjanna á erfiðum tímum.
Lipavský segir að það megi alls ekki semja um frið við Rússa á þeirra forsendum. Þeir ætli sér að hafa fullveldið af Úkraínumönnum með því að koma í veg fyrir að þeir gangi í Atlantshafsbandalagið.