13. mars 2025 kl. 8:55
Erlendar fréttir
Ítalía
Vörðu nóttinni úti vegna jarðskjálfta í Napólí
Margir vörðu nóttinni úti við í borginni Napólí og nágrenni eftir að jarðskjálfti 4,4 að stærð reið yfir klukkan 01:25 að staðartíma. Fólk dvaldi ekki í húsum sínum af ótta við frekari skjálfta og var því í bílum sínum eða á götum úti.
Skjálftinn varð á um þriggja kílómetra dýpi. Einn slasaðist bænum Pozzuoli þegar hús hrundi að hluta. Bærinn er nálægt upptökum skjálftans. Rafmagnslaust varð í sumum hlutum Napólí eftir skjálftann sem fannst víða í Campania-héraði. Tveir minni eftirskálftar fundust.
Verið er að meta skemmdir. Skólastarf verður fellt niður á nokkrum stöðum í dag á meðan verið er að meta ástand bygginga.