10. mars 2025 kl. 12:29
Erlendar fréttir
Þýskaland

Hundruðum flugferða aflýst vegna verkfalla í Þýskalandi

Hundruðum flugferða hefur verið aflýst í Þýskalandi vegna verkfalls flugvallarstarfsmanna víða um landið. Verkalýðsfélagið Verdi stendur fyrir verkfallinu sem hófst í gær á flugvellinum í Hamborg.

Farþegar á leið frá flugvöllum í Frankfurt, Munchen, Berlín og víðar eru hvattir til að leggja ekki af stað á flugvöllinn. Á annasamasta flugvelli landsins, í Frankfurt, segir í tilkynningu til farþega að þeir geti ekki farið um borð í flugvélar.

Verdi krefst hærri launa og betri aðstæðna fyrir starfsfólk flugvalla. Búist er við að verkfallið hafi áhrif á ferðaáætlanir um hálfrar milljónar manna í dag.

Flugvallarstarfsmenn á Berlin Brandenburg flugvelli ganga fylktu liði, allir í gulum vestum merktum verkalýðsfélaginu Verdi.
Flugvallarstarfsmenn á Berlin Brandenburg flugvelli í morgun.AP / Ebrahim Noroozi