Yoon Suk Yeol, forseta Suður-Kóreu hefur verið sleppt úr haldi lögreglu. Hann er þó enn til rannsóknar eftir að hafa verið settur af í desember.
Suðurkóreska þingið samþykkti þá að ákæra Yoon til embættismissis en hann hafði áður sett á herlög og hugðist stjórna landinu með tilskipunum. Herlögin urðu tilefni mikilla mótmæla sem urðu til þess að Yoon afturkallaði þau sólarhring eftir að þau tóku gildi.
Það kemur í hlut stjórnarskrárdómstóls landsins að kveða upp dóm. Verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi.
Yoon var handtekinn í janúar en hann hafði þá ítrekað neitað að mæta í skýrslutöku hjá saksóknara.
Yoon Suk Yeol heilsar stuðningsmönnum eftir að hafa verið sleppt úr haldi í dag.EPA-EFE / JEON HEON-KYUN