Fimm daga björgunarleiðangur úr helli
Konu, sem stórslasaðist djúpt ofan í helli á Ítalíu á laugardag, var bjargað út úr honum snemma í gærmorgun. Ottavia Piana var að kortleggja áður óþekkt svæði í Bueno Fonteno hellinum nærri Bergamo, þegar bjargsylla gaf sig og hún hrapaði niður fimm metra.
Bein í andliti brotnuðu við fallið, sem og rifbein og hnéskeljar. Ferðin út úr hellinum gekk hægt, því björgunarfólk varð að beita smáum sprengjum og rafknúnum loftborum til þess að víkka hellisveggina.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Piana slasar sig í hellinum. Í júní í fyrra fótbrotnaði hún eftir að grjót féll á hana. Hún var þá komin 150 metra ofan í jörðina og tók tvo daga að bjarga henni úr hellinum.