Pútín Rússlandsforseti er reiðubúinn að ræða vopnahlé í Úkraínu við Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta. Hann ætlar þó ekki að fallast á að gefa eftir mikið af því landsvæði sem Rússar hafa hertekið. Þetta hefur Reuters eftir heimildarmönnum úr rússneska stjórnkerfinu.
Pútín myndi krefjast þess að Úkraína gangi ekki í NATO. Rússar hafa innlimað Donetsk, Luhansk, Zaporizhzhia og Kherson og hafa yfirráð yfir sjötíu til áttatíu prósentum landsvæða þar. Mögulega samþykkja Rússar að draga sig frá svæðum í Kharkiv og Mykolaiv.
Stjórnvöld í Úkraínu hafa ítrekað lýst yfir að þau gefi ekki eftir land og hætti ekki við inngöngu í NATO.