Yngsti borgarstjórinn í sögu færeyska höfuðstaðarins Þórshafnar tekur við embætti í janúar á næsta ári.
Elsa Berg er verðandi borgarstjóri Þórshafnar í Færeyjum.KVF / KVF/Bjarni Árting Rubeksen
Elsa Berg er 28 ára og hlaut flest atkvæði höfuðstaðarbúa í sveitarstjórnarkosningunum fyrir viku. Hún er líffræðingur að mennt og fulltrúi Þjóðveldisflokksins sem tryggði sér meirihluta í Þórshöfn ásamt Jafnaðarflokknum og framboðslista bæjarbúa.
Elsa Berg var leiðtogi ungliða í Þjóðveldisflokknum frá 2016 til 2018, settist fyrst í borgarstjórn 2020 og tekur nú við borgarstjóraembættinu af Heðni Mortensen. Hann er fimmtíu árum eldri en hún, og var borgarstjóri Þórshafnar árin 2005 til 2016 og svo aftur frá árinu 2021.