Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur tryggt sér sigur í sveifluríkinu Nevada. Ekki eru næg ótalin atkvæði til að Kamala Harris varaforseti gæti fengið meirihluta atkvæða í ríkinu. Sigur Harris þar hefði þó ekki breytt neinu um niðurstöður kosninganna því Trump var þegar með næg atkvæði í kjörmannakerfinu til að tryggja sér forsetaembættið.
Trump hefur nú tryggt sér alls 301 kjörmann á landsvísu. Enn á eftir að klára atkvæðatalningu í Arizona en þar er fylgi Trumps yfir 50 prósent þegar yfir 80 prósent hafa verið talin.
Ef hann sigrar þar hefur hann tryggt sér sigur í öllum sjö sveifluríkjunum í nýafstöðnum forsetakosningum.
Trump hefur unnið kosningasigur í nærri öllum sveifluríkjunum.AP / Matt Rourke