Lögreglumenn standa vörð við inngang ráðstefnuhallar þar sem COP16 ráðstefnan var haldin.AP / Fernando Vergara
Stærstu náttúruverndarráðstefnu heims, COP16, lauk í Kólumbíu í dag án þess að ríkin sem eiga aðild að henni kæmu sér saman um áætlun til að auka við fjármögnun til verndunar tegunda. COP16 er ráðstefna ríkja sem eiga aðild að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.
Samningaviðræður á ráðstefnunni teygðust á langinn og fulltrúar ríkjanna yfirgáfu hana sumir áður en niðurstaða náðist. Markmið ráðstefnunnar var að meta framfarir sem náðst höfðu eftir samkomulag sem var samþykkt fyrir tveimur árum í Kanada um að stöðva eyðileggingu manna á náttúrunni.