Útlit er fyrir að Moldóvar hafni tillögu um að ganga í Evrópusambandið ef marka má tölur úr þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var samhliða forsetakosningum í dag.
Kona á kjörstað í Moldóvu.EPA-EFE / DUMITRU DORU
Um það bil 55 af hundraði sögðu nei þegar 70% atkvæða hafa verið talin. Hlutfallið gæti breyst þegar tölur berast erlendis frá og úr höfuðborginni, þar sem fylgi við Evrópusambandsaðild er meira.
Forsetinn Maia Sandu hefur hlotið 36 prósent atkvæða og þarf þá að mæta helsta keppinautnum í annarri umferð, saksóknaranum Alexandr Stoianoglo, sem er með 30 af hundraði atkvæða. Það er meira en skoðanakannanir höfðu bent til en hann er studdur af sósíalistum sem hliðhollir eru Rússum.