AOC skorar á Adams að hætta sem borgarstjóri New York
Alexandria Ocasio-Cortez, þingmaður Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, skorar á flokksbróður sinn Eric Adams að stíga úr stóli borgarstjóra í New York-borg.
Ótal spillingamál hafa komið upp í tengslum við Adams og bandamenn hans síðustu vikur og mánuði þar sem lögregla hefur meðal annars lagt hald á síma lögreglustjóra borgarinnar, varaborgarstjórans, yfirmanns skólamála og annarra.
Margir úr þessum hópi hafa þegar sagt af sér.
Meðal þess sem alríkislögreglan rannsakar eru ásakanir um hvort Adams hafi tekið við ólöglegum kosningaframlögum frá Tyrklandi og fimm öðrum ónefndum ríkjum.
Adams, sem var kjörinn í embætti árið 2021, hefur margoft lýst því yfir að hann hafi engan hug á að segja af sér. Hann hefur verið mjög umdeildur í eigin ranni, meðal annars vegna harðrar afstöðu sinnar í innflytjendamálum.
Ocasio-Cortez, einnig kölluð AOC, sem er fulltrúi Queens og Brooklyn-hverfanna í New York á þingi, er mesta þungaviktarmanneskjan í flokkum sem hefur stigið fram og krafist afsagnar Adams.
Í færslu á X, áður Twitter, sagði AOC að hún sjái ekki fyrir sér hvernig Adams geti haldið áfram að stýra borginni.
Holskefla afsagna og ómannaðar stöður ógni starfsemi borgarinnar. Útilokað sé að finna nýtt fólk til að fylla í skörðin og halda uppi vandaðri stjórnsýslu.
„Borgarinnar vegna, ætti hann að segja af sér.“