27. ágúst 2024 kl. 5:30
Erlendar fréttir
Asía

Jap­an­ir segja Kín­verja hafa ógnað öryggi og brotið gegn full­veld­is­rétti

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japan.
Fumio Kishida er forsætisráðherra Japans.EPA

Japönsk stjórnvöld segja Kínverja hafa brotið gegn fullveldisrétti landsins í gær með því að kínversk herflugvél fór í heimildarleysi inn fyrir lofthelgi landsins. Slíkt athæfi sé einnig alvarleg og algerlega óásættanleg ógn við öryggi Japans.

Japanski flugherinn sendi orrustuþotur á loft til að bregðast við ferðum kínversku flugvélarinnar sem var innan lofthelginnar í tvær mínútur. Japönsk stjórnvöld hafa áhyggjur af síaukinni nærværu Kínverja og telja umfangið aðeins eiga eftir að aukast verði ekki brugðist við.

Spenna hefur aukist aftur á þessum slóðum og talsverður núningur hefur orðið milli stjórnvalda Kína og Filippseyja. Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, er væntanlegur til Beijing í dag að hitta utanríkisráðherrann Wang Yi. Viðbúið þykir að þeir ræði nýliðna atburði í Suður-Kínahafi.