Forseti Taívan segir yfirgangi Kínverja ekki linna þar
Lai Ching-te Taívanforseti hvetur ríki heims til að sameinast um að draga úr vaxandi yfirgangi og útþenslustefnu Kínverja.
Lai sagði Kínverja ekki láta staðar numið næðu þeir Taívan á sitt vald og bætti við að þeir ætluðu sér að grafa undan friði og stöðugleika í heimshlutanum með því að ógna nágrönnum sínum. Hann benti máli sínu til stuðnings á sameiginlegar heræfingar Rússa og Kínverja í Suður-Kínahafi, Japanshafi og Kyrrahafinu vestanverðu.
Lai sagði Taívan ekki hræðast aðgerðir Kínverja og hét að gera sitt til að tryggja frið og stöðugleika á Taívansundi. Háttsettur kínverskur embættismaður sagði í gær þarlend stjórnvöld fullviss um algera sameiningu Kína og Taívan.
Kínverskir ráðamenn líta á Taívan sem óaðskiljanlegan hluta alþýðulýðveldisins og hafa ekki útilokað valdbeitingu við innlimun. Lai hefur lagt ríka áherslu á fullveldi Taívan og því líta kínversk stjórnvöld á hann sem hættulegan aðskilnaðarsinna. Hann áréttaði þó vilja til samvinnu við Kína sýndu þeir virðingu og viðurkenndu ríkin sem jafningja.