16. ágúst 2024 kl. 5:55
Erlendar fréttir
Taíland

Paetongtarn Shinawatra verður forsætisráðherra Taílands

Paetongtarn Shinawatra verður nýr forsætisráðherra Taílands eftir að 51 prósent þingmanna taílenska þingsins samþykkti skipun hennar í embættið. Fráfarandi forsætisráðherra, Srettha Thavisin, var gert að víkja úr embætti samkvæmt úrskurði stjórnarskrárdómstóls fyrr í vikunni um að hann hefði brotið gegn siðareglum.

Paetongtarn Shinawatra veifar brosandi á blaðamannafundi í Bangkok 15. ágúst 2024.
ASSOCIATED PRESS / Sakchai Lalit

Shinawatra hefur ekki áður setið í ríkisstjórn. Hún er 37 ára gömul og verður því yngsti forsætisráðherra Taílands til þessa. Hún er þó þriðji forsætisráðherrann sem kemur úr Shinawatra-fjölskyldunni.

Föður hennar, Thaksin Shinawatra, var steypt af stóli árið 2006. Hann kom aftur til Taílands á síðasta ári eftir fimmtán ára sjálfskipaða útlegð þegar flokkur þeirra Pheu Thai gekk í ríkisstjórnarsamstarf með herstjórnarflokkum.