Forsætisráðherra Taílands settur af
Stjórnarskrárdómstóll Taílands hefur úrskurðað að Srettha Thavisin forsætisráðherra landsins verði að víkja vegna brots á siðareglum. Brot Thavisin felst í því að hann skipaði lögfræðing með dóm á bakinu í ríkisstjórn.
Dómurinn setur stöðuna í tælenskum stjórnmálum í aukið uppnám, sem var þó ærið fyrir. Í síðustu viku leysti þessi sami dómstóll upp aðalstjórnarandstöðuflokk landsins og bannaði fyrrverandi leiðtoga hans að taka þátt í stjórnmálum í tíu ár.
Stjórnmál hafa verið óstöðug í Taílandi meira og minna í tvo áratugi. Reglulega hafa orðið þar valdarán, mótmæli og dómsmál sem hafa snúist um valdabaráttu milli hersins, konungssinna og stjórnmálaflokka tengdum fyrrverandi einræðisherra Taílands, Thaksin Shinawatra.
Úrskurður dómstólsins þýðir jafnframt að ríkisstjórnin er leyst upp og þarf þingið nú að koma saman og skipa nýja stjórn. Thavisin hefur lýst því yfir að hann ætli að una úrskurðinum.