30. júlí 2024 kl. 0:13
Erlendar fréttir
Ísrael-Palestína

Ísrael vill að Tyrk­landi verði vikið úr NATO

Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í New York í mars 2024.
Israel Katz utanríkisráðherra Ísraels.EPA-EFE / SARAH YENESEL

Ísraelar vilja að Tyrkjum verði vikið úr Atlantshafsbandalaginu. Israel Katz, utanríkisráðherra landsins, segir að Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hafi hótað innrás í Ísrael með ummælum sínum um helgina þar sem hann sagði ekkert því til fyrirstöðu að fara inn í Ísrael til að liðsinna Palestínumönnum.

Hann nefndi aðgerðir Tyrkja í Líbíu og Nagorno-Karabakh máli sínu til stuðnings. Ísraelskum sendiherrum hefur verið uppálagt að hafa samband við leiðtoga allra ríkja Atlantshafsbandalagsins og krefjast fordæmingar á orðum Erdogans ásamt því að Tyrkjum verði vikið úr bandalaginu. Erdogan hefur allar götur frá sjöunda október gagnrýnt af hörku hernað Ísraels á Gaza.