26. júlí 2024 kl. 1:35
Erlendar fréttir
Bandaríkin

Ljós­mynd tengd til­ræði á kápu nýrrar bókar Trumps

Donald Trump steytir hnefanum eftir misheppnað banatilræði í Butler, Pennsylvania. Laugardaginn 13. júlí 2024.
Ljósmyndin sem prýðir forsíðu bókarinnar Save America.AP / Evan Vucci

Þriðja bók Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta kemur út í september. Á kápunni verður ljósmynd sem þegar hefur hlotið heimsfrægð. Á myndinni er Trump umkringdur leyniþjónustumönnum og steytir hnefann til lofts skömmu eftir að reynt var að ráða hann af dögum 13. júlí.

Titill bókarinnar er Save America. Á hverri síðu er ljósmynd frá forsetatíð Trumps með texta skrifuðum af honum sjálfum.

Trump segir í samtali við fréttastöðina Fox að bókin sýni velgengni Bandaríkjanna undir hans stjórn og samskipti hans við leiðtoga heimsins. Hún sé einnig framtíðarsýn fyrir næsta kjörtímabil. Bókin er fáanleg í forsölu fyrir 99 dali eða rúmar 13 þúsund krónur.