4. júlí 2024 kl. 0:39
Erlendar fréttir
Bandaríkin

Biður Biden að víkja fyrir þrótt­meiri fram­bjóð­anda

Reed Hastings, einn af stofnendum Netflix og einn helsti bakhjarl Joes Biden Bandaríkjaforseta, hefur dregið stuðning sinn við Biden til baka.

Í tölvupósti sem Hastings sendi til New York Times í gær fer hann fram á að Biden dragi framboð sitt til baka og gefi öðrum þróttmeiri leiðtoga úr flokki Demókrata tækifæri til að sigra Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

Reed Hastings, einn af stofnendum Netflix, brosir til ljósmyndara við heimsókn hjá forseta Frakklands. Í baksýn hanga fánar Frakklands og Evrópusambandsins.
EPA-EFE / BENOIT TESSIER

Hastings hefur stutt bæði kosningaframboð Bidens með fjárframlögum að því er fram kemur á vef New York Times.

Samanlagt hafa hann og eiginkona hans, Patty Quillin, gefið Demókrötum yfir tuttugu milljónir Bandaríkjadala, þar af eina og hálfa milljón í kosningabaráttu Bidens árið 2020 og hundrað þúsund dali í fyrrasumar.