Frakkland: Afdrifaríkar kosningar í vændum
Það var innan við klukkustund liðin frá því ljóst var að flokkur Emmanuels Macron, Frakklandsforseta hefði beðið afhroð í Evrópuþingskosningunum 9. júní, þar til forsetinn tilkynnti að hann hefði ákveðið að rjúfa þing og boða til kosninga í Frakklandi um næstu mánaðarmót.
Daginn eftir voru flokkarnir á vinstri vængnum búnir að mynda kosningabandalag; á hægri vængnum er lauslegt samstarf sem stærsti flokkurinn, Þjóðfylkingin leiðir, og í miðjunni er bandalag sem leitt er af Ensemble, flokki Macrons.
Skoðanakannanir benda eindregið til þess að Þjóðfylkingin vinni stórsigur í kosningunum; nái jafnvel meirihluta þingsæta á franska þinginu og geti þannig myndað ríkisstjórn. Það er þó alls ekki víst; leiðtogar flokksins segja að þeir vilji ekki mynda samsteypustjórn með öðrum flokkum, og reyndar er lítil hefð fyrir því í Frakklandi.
Kosningakerfið í Frakklandi gerir það hins vegar að verkum að erfitt að meta mögulegan styrk flokkanna út frá skoðanakönnunum, en stjórnmálaskýrendur hafa þó skotið á að miðað við núverandi fylgi geti Þjóðfylkingin fengið allt að 280 þingsæti (núna með 88) og að Ensemble gæti fengið um 100 sæti (núna með 250). Það er því útlit fyrir að vatnaskil verði í frönskum stjórnmálum eftir þessar kosningar og reyndar er þegar farið að tala um mögulega stjórnskipulega krísu, nái ekkert bandalag hreinum meirihluta á þinginu.
Hverjir eru í framboði?
Minnst fimmtán flokkar og flokkabrot eru í framboði. Stærstur hluti þeirra er hins vegar kominn í kosningabandalög sem verða að líkindum ráðandi á franska þinginu eftir kosningarnar.
Rassemble National – Þjóðfylkingin
Leiðtogar: Marine Le Pen og Jordan Bardella.
Þjóðfylkingin er þjóðernissinnaður harðlínuflokkur til hægri á vettvangi franskra stjórnmála. Flokkurinn var stofnaður 1972 af Jean Marie Le Pen (föður Marine Le Pen), en nafni flokksins var breytt árið 2018. Marine Le Pen tók við hlutverki leiðtoga árið 2011 og hefur síðan þá reynt að milda ásýnd flokksins. Núverandi forseti flokksins er Jordan Bardella, sem telst vera líklegur forsætisráðherra, komist flokkurinn í aðstöðu til að mynda ríkisstjórn. Þjóðfylkingin er ekki í formlegu bandalagi, en hópur þingmanna og annarra sem tengjast Repúblikanaflokknum og Eric Ciotti, fyrrverandi forseta flokksins, bjóða fram í samstarfi við Þjóðfylkinguna.
Meðal stefnumála flokksins:
- Harðari innflytjendalöggjöf
- Lækkun skatta og tryggja aukinn kaupmátt almennings.
- Eru ekki á móti aðild Frakka að NATO, en vilja hætta þátttöku í aðgerðum bandalagsins. Styðja baráttu Úkraínumanna gegn Rússum, en eru á móti inngöngu Úkraínu í NATO og Evrópusambandið og vilja ekki senda langdræg vopn til Úkraínu.
Noveau Front Populaire (NFP)
Leiðtogar: Jean Luc Melenchon og aðrir
NFP er nýtt bandalag flokka á vinstri vængum, myndað daginn eftir að Macron tilkynnti um kosningar. Stærsti flokkurinn er La France Insoumise (LFI), sem leiddur er af Jean-Luc Mélenchon. Aðrir flokkar í bandalaginu eru Græningjar, Sósíalistar og Kommúnistaflokkurinn. Ekki er ljóst hver gæti orðið forsætisráðherraefni þessa bandalags, en talsverð andstaða er við að Mélenchon verði fyrir valinu.
Meðal stefnumála bandalagsins:
- Að lækka aftur aldur fólk til að fara á eftirlaun.
- Hækka lágmarkslaun í 1600 evrur.
- Styðja baráttu Úkraínumanna, meðal annars með hernaðarlegri aðstoð.
- Víkka út löggjöf um innflytjendur, meðal annars með því að búa til sérstakan flokk fólks sem flýr loftslagsbreytingar.
Ensemble
Leiðtogar: Emmanuel Macron og fleiri
Ensemble er bandalag hóps flokka á miðjunni, þar sem flokkur Macrons, Renaissance, er sá stærsti. Meðal annarra flokka er Horizons, flokkur Edouard Philippe, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands. Ensemble var stærsti hópurinn á franska þinginu, en missti meirihlutann í kosningunum 2022. Núverandi forsætisráðherra, Gabriel Attall, kemur úr þessum flokki.
Meðal stefnumála bandalagsins:
- Halda áfram að tryggja nýsköpun atvinnutækifæra
- Halda áfram stuðningi við Úkraínu, meðal annars með vopnasendingum. Macron hefur heldur ekki útilokað að senda franska hermenn til Úkraínu til að þjálfa þarlenda hermenn.
- Halda aftur af vaxandi ríkisútgjöldum.
Hvernig virkar kosningakerfið í Frakklandi?
Á franska þjóðþinginu eru 577 þingsæti; 539 í Frakklandi sjálfu, 27 á landssvæðum utan Frakklands (Outre Mer) og 11 fyrir Frakka sem búa erlendis. Kosningarnar fara fram í tveimur umferðum; sú fyrri verður á sunnudaginn, 30. júní og sú seinni 7. júlí. Fari svo að einhver frambjóðandi fái hreinan meirihluta atkvæða í sínu kjördæmi, og stuðing frá fjórðungi kjósenda á kjörskrá (að minnsta kosti), þarf ekki að halda seinni umferð. Í langflestum tilvikum gerist þetta ekki; í seinni umferðina komast þá tveir efstu frambjóðendurnir, auk þeirra sem fá minnst 12.5 af atkvæðum kjósenda á kjörskrá.
Þetta fyrirkomulag býður upp á mjög taktískar kosningar, ekki síst þegar flokkar vinna saman í kosningabandalögum og bjóða þannig ekki fram gegn hvor öðrum í einstökum kjördæmum. Kerfið býður líka upp á taktískt val kjósenda á frambjóðendum sem eru líklegir til að komast áfram eftir fyrri umferð.
Seinni umferðin snýst oft upp í baráttu tveggja flokka. Í síðustu þingkosningum gerðist það aðeins í sjö kjördæmum að þrír frambjóðendur komust áfram. Hins vegar telja margir líklegt að þessum tilvikum fjölgi núna, enda er búist við meiri kjörsókn sem getur þýtt að fleiri komast yfir 12.5 prósenta þröskuldinn.
Allt þetta gerir það að verkum að taka verður öllum skoðanakönnunum með fyrirvara; þótt þær bendi ítrekað til sigurs Þjóðfylkingarinnar, gæti niðurstaðan mögulega orðið önnur vegna pólitískra vendinga í einstökum kjördæmum. Annar mögulegur áhrifaþáttur er það sem Frakkar kalla "Front Républicain", þegar hefðbundnir flokkar til hægri og vinstri hafa sameinast gegn harðlínu- og öfgahægri flokkum. Það gerðist til dæmis í forsetakosningunum árið 2002, þegar Jean Marie Le Pen komst í seinni umferð, en tapaði stórt gegn Jacques Chirac.
Hvað gerist ef Þjóðfylkingin sigrar í kosningunum?
Það fer allt eftir því hvað flokkurinn fær mörg þingsæti. Til að ná hreinum meirihluta þarf 298 sæti á franska þinginu, og leiðtogar Þjóðfylkingarinnar hafa lýst því yfir að þeir hafi ekki áhuga á samsteypustjórn. Reyndar er ekki mikil hefð fyrir slíkum ríkisstjórnum í Frakkland og þær eru langoftast skipaðar liðsmönnum forsetans. Síðan 1958, frá stofnun Fimmta Lýðveldisins, hefur það aðeins gerst þrisvar sinnum að forsætisráðherra Frakklands kemur ekki úr sama flokki og forseti landsins.
Nái Þjóðfylkingin, eða NFP hreinum meirihluta á þinginu, mun Macron væntanlega neyðast til að útnefna forsætisráðherra úr viðkomandi flokki, eða bandalagi - það sem Frakkar kalla „Cohabitation“. Fari hins vegar svo að enginn skýr meirihluti sé til staðar, og enginn möguleiki á samstarfi eða samsteypustjórn (eins og verður að teljast ólíklegt miðað við orðræðuna þessa dagana), þá er til staðar sá möguleiki að mynda starfsstjórn, ekki ólíkt því sem gerist iðulega í ríkjum eins og Hollandi og Belgíu.
Vaxandi umræða er hins vegar um að upp gæti komið stjórnskipuleg krísa í Frakklandi, fari svo að enginn meirihluti sé til staðar eftir kosningarnar, og það besta sem gæti gerst væri að forsetinn myndi segja af sér. Macron virðist hins vegar ekki taka það í mál; í opnu bréfi sem hann birti um helgina í nokkrum frönskum fjölmiðlum, fullvissaði forstetinn kjósendur um að hann ætlaði sér að sitja í embætti þar til kjörtímabili hans lýkur, árið 2027.