Tugir látnir í óviðri í Mið-Ameríku
Minnst þrjátíu eru látnir eftir vonskuveður sem hefur herjað á ríki í Mið-Ameríku síðustu daga. Stöðug úrhellisrigning hefur orðið til þess að ár hafa flætt yfir bakka sína og skriður hafa fallið. Fjölmörg heimili eru gjöreyðilögð, vegir hafa lokast og truflanir hafa orðið á rafmagni.
Yfirvöld í El Salvador sögðu í gær að nítján hefðu beðið bana í veðurofsanum í vikunni, þar af sex börn. Um þrjú þúsund manns hafast við í neyðarskýlum. Tíu létust í Gvatemala að sögn yfirvalda þar og nærri ellefu þúsund manna byggð hefur verið rýmd. Í Hondúras lést einn og um tólf hundruð manna byggð hefur verið rýmd síðustu daga.
Búist er við því að óveðrið færist norðar næstu sólarhringa og hefur nú þegar bætt mikið í úrkomu í Mexíkó. Mexíkóska veðurstofan varar einnig við miklu roki og þrumuveðri.