Trump heimsótti þinghúsið og fékk afmælistertu
Donald Trump, sem fagnar 78 ára afmæli sínu í dag, fundaði í gær með þingmönnum Repúblikanaflokksins í þinghúsinu í Washington fyrsta sinni frá áhlaupi stuðningsmanna hans 6. janúar 2021.
AP-fréttaveitan segir þingmenn hafa sungið afmælissönginn fyrir Trump og gefið honum tertu. Trump sagðist finna mikla samstöðu innan flokksins og hét samvinnu við hvern og einn, jafnvel andstæðinga sína.
Markmiðið væri aðeins eitt, að efla Bandaríkin að nýju. Fundurinn var jákvæður að sögn Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni sem hefur iðulega gagnrýnt Trump, en þeir tókust í hendur.
Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar, kvaðst þess fullviss að Trump hefði betur í forsetakosningunum, Repúblikanaflokkurinn næði meirihluta í öldungadeildinni og styrkti meirihluta sinn í fulltrúadeildinni.
Ekki voru allir jafnhrifnir af heimsókn Trumps en demókratinn Nancy Pelosi, fyrrverandi forseti fulltrúadeildarinnar, sagði hvatamann óeirðanna hafa snúið aftur á vettvang glæpsins. Tilgangur hans þá og nú væri að brjóta niður lýðræði í Bandaríkjunum.