6. júní 2024 kl. 21:13
Erlendar fréttir
Bandaríkin

Bannon þarf að hefja af­plán­un 1. júlí

Steve Bannon, fyrrverandi pólitískur ráðgjafi Donalds Trump, þarf að hefja afplánun á fjögurra mánaða fangelsisdómi 1. júlí.

Bannon var sakfelldur í júlí 2022 fyrir að mæta ekki fyrir þingnefnd sem rannsakaði aðdraganda árásarinnar á þinghúsið í janúar 2021. Slíkt flokkast sem vanvirðing. Hann var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi í október 2022 og áfrýjunardómstóll staðfesti dóminn í síðasta mánuði. Í gær felldi sami dómstóll lausn Bannons gegn tryggingu úr gildi.

Steve Bannon fyrir alríkisdómstól í Washington 6. júní 2024.
Pool New York Post / Steven Hirsch
Steve Bannon fyrir rétti í dag.

Bannon var einn helsti skipuleggjandi framboðs Trumps til forseta árið 2016, þegar Trump var kjörinn. Bannon starfaði í Hvíta húsinu fyrstu sjö mánuði Trumps í embætti en hætti þá vegna ósættis við starfsfélaga sína.

Bannon sagði eftir dómsuppkvaðninguna að ekkert fangelsi myndi þagga niður í honum. Donald Trump, sem sjálfur var dæmdur fyrir skjalafals í síðustu viku, kallaði dóminn bandarískan harmleik á samfélagsmiðli sínum Truth Social. Vopnavæðing dómsvaldsins hefði náð nýjum hæðum lögleysu.