19. maí 2024 kl. 5:35
Erlendar fréttir
Frakkland

Enn ríkir ólga í Nýju Kal­ed­ón­íu en stjórn­völd segja and­rúms­loft­ið að róast

Mikil ólga ríkir enn í Nýju Kaledóníu, harkaleg mótmæli héldu áfram í gærkvöld og nótt, sjötta daginn í röð. Franskar hersveitir hófu í morgun aðgerðir til að endurheimta þjóðveg sem tengir höfuðborgina Noumea og aðalflugvöll landsins.

Svartklæddur Emmanuel Macron Frakklandsforseti flytur ræðu á fundi með björgunarsveitum í Haute-Savoie, 9. júní 2023, daginn eftir að nokkur börn og fullorðnir særðust í hnífaárás í frönsku Ölpunum.
Emmanuel Macron forsætisráðherra Frakklands hefur reynt að bera klæði á vopnin.EPA-EFE/DENIS BALIBOUSE

Vegurinn hefur verið lokaður frá því óeirðirnar hófust síðasta mánudag, þannig að inn- og útflutningur hefur stöðvast og þúsundir ferðamanna komast hvorki lönd né strönd. Útgöngubann, neyðarástand, TikTok-bann og fjöldi franskra hermanna kom ekki í veg fyrir áframhaldandi róstur í nótt.

Stjórnvöld staðhæfa þó að nokkuð hafi róast en sex hafa látið lífið og hundruð særst frá því óeirðir brutust út. Talið er að eignatjón nemi um 200 milljónum evra en byggingar hafa verið brenndar, verslanir rændar og bílar eyðilagðir.

Mikil ólga hefur kraumað undir niðri vegna efnahagsvanda, spennu milli þjóðfélagshópa og andstöðu við yfirráð Frakka. Dropinn sem fyllti mælinn var stjórnarskrárbreyting í franska þinginu sem veitti kosningarétt öllum sem hafa búið í Nýju Kaledóníu tíu ár eða lengur.

Andstæðingar breytinganna segja það grafa undan Kanak-fólkinu, frumbyggjum eyjanna, sem flestir eru fylgjandi sjálfstæði. Frönsk stjórnvöld staðhæfa að aðskilnaðarhópnum CCAT megi kenna um uppþotin og minnst 10 af leiðtogum hans sitja í stofufangelsi.

Samtökin kölluðu eftir því á föstudag að átökum linnti svo ástandið færi ekki enn frekar úr böndunum. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hóf á föstudag að ræða einslega við leiðtoga sjálfstæðissinna og þeirra sem hlynntir eru áframhaldandi sambandi. Enn hefur þó ekki tekist að bera klæði á vopnin.